Perlan

Saga Perlunnar

Eitt helsta kennileiti Reykjavíkur

Opnun Perlunnar

Perluna teiknaði arkitektinn Ingimundur Sveinsson og var hún vígð 21. júní 1991. Byggingin samanstendur af gríðarstóru glerhvolfi sem hvílir á sex hitaveitugeymum, sem hver um sig getur rúmað um 4 milljónir lítra af jarðhitavatni. Perlan er stálgrindarhús en stálgrindin hefur öðru hlutverki að gegna en að tengja saman hitaveitugeyma og mynda hvolfþak. Grindin, sem er hol að innan, er ofnakerfi Perlunnar. Á köldum vetrardögum streymir heitt vatn um stálgrindina, en kalt vatn á heitustu sumardögum.

Fyrstu hugmyndir um byggingu glæsihúss á Öskjuhlíð eru frá árinu 1930 og þær hugmyndir komu frá meistara Jóhannesi Kjarval. Um musterið segir Kjarval: „Átti að þekja musterishliðarnar spegilhellum, svo norðurljósin gætu nálgast fætur mannanna – átti að skreyta þakið kristöllum í allavega litum, og ljóskastari átti að vera efst á mæninum sem lýsti út um alla geyma. Húsið sjálft átti að svara birtu dagsins og táknum næturinnar.“ Þetta er ótrúlega nákvæm lýsing á byggingu sem var hönnuð og reist 60 árum síðar.

Perlan
Gömlu vatnstankarnir
Skautað á tjörninni

Gömlu vatnstankarnir

Fyrsti hitaveitugeymirinn var reistur árið 1939 efst á Öskjuhlíðinni í 61 metra hæð yfir sjávarmáli. Sú hæð gefur nægan þrýsting til að knýja vatn upp á tíundu hæð stórhýsis sem byggt skyldi í 38 metra hæð yfir sjávarmáli, en sú er einmitt hæðin á Skólavörðuholti þar sem Hallgrímskirkja stendur. Á næstu tveimur áratugum bættust fimm tankar við þann fyrsta.

Heitt vatn sem streymir úr iðrum jarðar er nú ekki aðeins talin búbót á Íslandi, heldur beinlínis nauðsynlegt, bæði fyrir efnahag heimilanna og þjóðarinnar, og til að draga úr loftslagsbreytingunum.

Öskjuhlíð

Öskjuhlíðin er sannarlega perla Reykjavíkur. Þar hafa yfir 176 þúsund tré verið gróðursett, og er hún nú skógi vaxinn sælureitur. Hér má finna ummerki um fjölbreytta jarðsögu seinni hluta ísaldar. Á síðasta jökulskeiði var mikið landsig þegar ísaldarjökullinn skreið yfir landið og má í Öskjuhlíð sjá ýmsar menjar um jökulrof, svo sem hvalbak með jökulrákum.

Í lok ísaldar fyrir um 10 þúsund árum var Öskjuhlíðin eyja. Því til sönnunar er sjóbarið grjót sem finnst í um 43 metra hæð yfir sjávarmáli umhverfis hlíðina. Sífellt fleiri borgarbúar og ferðamenn heimsækja Öskjuhlíðina og skoða þar ummerki úr náttúru- og jarðsögu landsins.

Öskjuhlíð
Stríðsminjar í Öskjuhlíð

Stríðsminjar í Öskjuhlíð

Í apríl 1940 hernámu nasistar Noreg og Danmörku. Bretar urðu uggandi um að Ísland yrði næst, þar sem það var hlutlaust ríki í sambandi við Danmörku. Til að tryggja að svo yrði ekki hernámu Bretar Ísland í maí árið 1840.

Ekki kom til átaka vegna hernámsins, enda Ísland herlaust land. Breskt herlið tókmikilvægustu staði og stofnanir í Reykjavík og úti um land á sitt vald til að varna Þjóðverjum komu og til að koma upp bækistöðvum fyrir flugvélar og flota Bandamanna. Einnig skyldi stöðvaður útflutningur Íslendinga til Þýskalands, einkum fiskur.

Í júní 1940 bættist kanadískt herlið við hið breska og í júlí sendi Roosevelt Bandaríkjaforseti herlið til viðbótar þrátt fyrir að Bandaríkin teldust enn hlutlaus í hildarleiknum. Árið 1943 voru erlendir hermenn á Íslandi orðnir um 50 þúsund, sem var gríðarlegur fjöldi í ljósi þess að Íslendingar voru ekki nema um 120 þúsund fyrir hernámið.

Bretar komu upp flugvöllum á Kaldaðarnesi og í Reykjavík, en Bandaríkjaher gerði stóran flugvöll við Keflavík og er þar nú aðalflugvöllur Íslands. Herstöðvar flotans voru í Hvalfirði, við Seyðisfjörð og í Reykjavíkurhöfn.

Breska setuliðið setti upp varðstöð á Öskjuhlíð og inni á milli trjánna þar er enn að finna fjölda stríðsminja, svo sem skotbyrgi, rústir stjórnstöðvarinnar og þaklaus neðanjarðarbyrgi. Þó að þessar minjar hafi látið á sjá í tímans rás, og séu nú frekar vettvangur partíhalds og veggjakrots en varna gegn óvinveittum herjum, eru þær áleitin minnismerki um liðna tíð.

Reykjavík og Perlan

Reykjavík er heillandi og einstök borg, fyrir erlenda ferðamenn, innlenda gesti og fyrir borgarbúa sjálfa. Borgarstæðið er stórfenglegt, menningarlífið öflugt og líflegt og enginn skortur á margskonar lystisemdum í mat og drykk á fjölbreytilegum veitingastöðum og krám. Gamli bærinn er söguleg og listræn veisla og á höfuðborgarsvæðinu tengist mannlífið margs konar náttúru, lagaðri að þörfum samfélagsins en einnig nær óraskaðri.

Perlan er einn af aðaláfangastöðum ferðamanna í borginni, og frá útsýnispallinum er magnað útsýni yfir höfuðborgarsvæðið og fjallahringinn. Í Perlunni er fjöldi sýninga, þar á meðal íshellir, stjörnuver og gagnvirkar sýningar um íslenska náttúru og menningu. Veitingasalurinn í glerhvolfinu snýst heilan hring á klukkustund þannig að þar má njóta útsýnis yfir alla borgina yfir frábærum málsverði.

Reykjavík
Reykjavík

Leiðarlýsing