Geldingadalir

Ógnarkraftar

Náttúruöflin – sýning

Fagradalsfjall
Náttúruöflin sýning

Eldvirkni

Eldvirkni skapast vegna hita og þrýstings neðan yfirborðs jarðar. Eldvirkni á jörðinni er mest þar sem  jarðskorpuflekar mætast, á flekamótum (fellingafjöll) og á flekaskilum eða úthafshryggjum eins og í tilviki Íslands.

Eldvirkni á Íslandi er afar fjölbreytileg og vísindamenn tala frekar um eldstöðvakerfi en einstakar eldstöðvar eða eldfjöll. Á Íslandi eru rúmlega þrjátíu virk eldstöðvakerfi með margs konar gerðum einstakra eldstöðva.

Á sýningunni um Náttúruöflin kynnast gestir afli eldstöðva, jarðskjálfta og jarðvarma – sjá, heyra og skynja.

Jarðskjálftar

Ísland situr á Mið-Atlantshafshryggnum, skilum Evrasíuflekans og Norður-Ameríkuflekans. Þess vegna er eldvirkni mikil á landinu með jarðskjálftum og margs konar náttúrufyrirbærum sem tengjast jarðvarma. Þessar náttúruaðstæður hafa frá upphafi mótað íslenskt samfélag.

Jarðskjálfti felst í því að höggbylgjur berast allan hringinn frá upptökum skjálftans, upp á yfirborð jarðar og niður í átt að jarðarmiðju. Vísindamenn nýta þessar bylgjur líkt og risastóra skanna til að skyggnast um innri uppbyggingu jarðarinnar. Reyndar eigum við jarðskjálftarannsóknunum að þakka mestallt það sem við vitum um innri gerð jarðar.

Jarðskjálftarnir eru líka mikilvægir fyrir jarðvarmavinnslu. Við jarðskjálfta myndast sprungur og holrými neðanjarðar. Vatn smýgur niður um sprungurnar og safnast í holrýmin, tekur í sig hita og berst aftur upp á yfirborðið. Af sjónarhóli orkuvinnslu eru jarðskjálftar afar mikilvæg náttúrufyrirbæri.

Gos á Íslandi
Jarðvarmi
Náttúröflin sýning

Jarðvarmi

Það má líta á Ísland sem jarðskán ofan á sprungu í jarðskorpunni, en þessar aðstæður gefa Íslendingum kost á tiltölulega hreinni og ódýrri orku frá jarðvarma. Vatn úr jöklum og regnvatn smýgur ofan í jarðlögin gegnum djúpar sprungur. Víða safnast það fyrir í nánd við bergkviku. Vatnið hitnar og berst upp aftur í hverum og laugum – goshverum, gufuhverum, leirhverum og margs konar heitum laugum, vermslum og volgrum.

Rúmlega 90 af hundraði bygginga á Íslandi njóta hitunar með jarðvarma. Heitt vatn er leitt í pípum til byggða og nýtt til húshitunar og sem heitt vatn til heimilisþarfa, beint eða óbeint, að ógleymdum öllum sundlaugunum.

Perlan er byggð meðfram og ofan á sex miklum heitavatnstönkum sem notaðir eru fyrir hitaveituna í Reykjavík. Þeir geymdu alls 24 milljónir lítra af heitu vatni úr borholum á borgarsvæðinu og nágrenni þess.

Aftur í Sýningar