A celebration of Iceland’s 100 years as a fully sovereign state, the Icelandic Museum of Natural History exhibition in Perlan.

Sýning Náttúruminjasafns Íslands í Perlunni

Náttúruminjasafn Íslands áætlar að opna sýningu í Perlunni á næsta ári í tengslum við 100 ára afmæli fullveldis Íslands. Skrifað var undir samkomulag í Perlunni í dag sem tryggir safninu sýningaraðstöðu á nýbyggðri annarri hæð byggingarinnar. Samkomulagið undirrituðu Hilmar J. Malmquist forstöðumaður Náttúruminjasafns Íslands og Agnes Gunnarsdóttir framkvæmdastjóri Perlu norðursins að viðstöddum Kristjáni Þór Júlíussyni mennta- og menningarmálaráðherra og stjórn Perlu norðursins.

Mjög merk tímamót fyrir Náttúruminjasafnið

Hilmar J. Malmquist forstöðumaður Náttúruminjasafns Íslands segir undirritun samningsins vera mjög merk tímamót í sögu Náttúruminjasafns Íslands. „Í fyrsta skipti síðan höfuðsafnið var sett á laggirnar árið 2007 stefnir í að safnið fái aðstöðu til eigin sýningahalds. Nú getur Náttúruminjasafnið loksins sinnt einu af sínum meginhlutverkum sem er að miðla til almennings upplýsingum með sýningahaldi um náttúru Íslands, náttúrusögu, nýtingu náttúruauðlinda og náttúruvernd. Húsnæðið er frábært og hér blasa við töfrar íslenskrar náttúru allt um kring — fagur fjallahringur, hraunbreiður, háhitasvæði, eldfjöll, hafið og jöklar,“ segir Hilmar. „Þetta tækfæri sem Perla norðursins býður Náttúruminjasafninu upp á er afar mikilvægt og þakkarvert. Það verður þó að hafa það í huga að þátttaka okkar í Perluverkefninu leysir ekki húsnæðisþörf höfuðsafnsins undir rannsóknir, skrifstofur og sýningahald til framtíðar.“

Einstakur staður til að fræðast um náttúru Íslands

Agnes Gunnarsdóttir framkvæmdastjóri Perlu norðurins segir gleðilegt að Náttúruminjasafnið Íslans og náttúrusýning Perlu norðursins verði undir sama þaki. „Náttúruminjasafnið er eitt af okkar höfuðsöfnum og því mikið fagnaðarefni að það fái loks sýningarastöðu sem því sæmir á 100 ára afmæli fullveldis Íslands,“ segir Agnes. „Með því að staðsetja sýningu safnsins hér í Perlunni er hægt að tengja hana náttúrusýningu Perlu norðursins. Þannig verður Perlan að einstökum stað fyrir skólabörn, íbúa landsins og ferðafólk til að kynnast og fræðast um það náttúruundur sem Ísland er,“ segir Agnes.

 


Náttúruminjasafn Ísland

Náttúruminjasafn Íslands var stofnsett með lögum fyrir rúmum áratug eða vorið 2007. Rætur þess liggja þó aftur til ársins 1889 þegar Hið íslenska náttúrufræðifélag var stofnað, með það meginmarkmið að koma upp sem fullkomnustu náttúrugripasafni á Íslandi. Náttúruminjasafn Íslands er eitt þriggja höfuðsafna landsins auk Listasafns Íslands og Þjóðminjasafns Íslands og heyrir það undir mennta- og menningarmálaráðuneyti.

Perla norðursins

Perla norðursins stendur fyrir metnaðarfullri og nútímalegri náttúrusýningu í Perlunni sem miðlar upplýsingum um náttúru Íslands, sérkenni hennar og þróun, nýtingu náttúruauðlinda og náttúruvernd og vistfræði Íslands í alþjóðlegu samhengi. Fyrsti áfangi af tveimur mun formlega opna þann 2. júlí og er þar einblínt á jökla Íslands og áhrif þeirra á land og þjóð.

Nánari upplýsingar

  • Agnes Gunnarsdóttir, framkvæmdastjóri Perlu norðursins í síma 696 0678.
  • Hilmar J. Malmquist, forstöðumaður Náttúruminjasafns Íslands í síma 893 0620.

Leave a Comment