Sjáðu súluna: Drottning hafsins

Tignarlegur hvítur fugl svífur yfir haffletinum þar til hann tekur sig til og stingur sér lóðrétt niður í sjóinn eftir fiski. Gusugangurinn og lætin þegar fuglinn hverfur í hafið er sjón sem enginn gleymir. Þessi fugl er að sjálfsögðu súla (Morus bassanus) sem hefur fengið viðurnefnið „drottning hafsins“ vegna fegurðar og glæsileika.

Þetta er súlan

Súlan er af ættbálki árfeta (Suliformes) en sá ættbálkur er elsti núlifandi ættbálkur fugla. Einkenni árfeta eru m.a. sundfit milli allra fjögurra tánna. Til árfeta teljast hérlendis, auk súlunnar, dílaskarfur (Phalacrocorax carbo) og toppskarfur (Phalacrocorax aristotelis).

Súlan er stór fugl, um 90-100 cm að lengd og vegur allt að 3 kg. Fullorðnir fuglar eru hvítir með svarta vængenda, svarta fætur og gula slikju á höfði. Augu og goggur eru blágrá. Ungarnir eru dökkbrúnir en lýsast með aldrinum og fá lit fullorðinna fugla við 4 ára aldur. Vængir eru sterkbyggðir og einstaklega langir en vænghafið er 180-200 cm sem gerir súlunni kleift að svífa langar leiðir. Ekki veitir af þessu vænghafi þar sem súlur fljúga jafnvel nokkur hundruð kílómetra frá varpstað að fæðuslóð. Súlan eyðir megninu af ævinni úti á rúmsjó en nálgast varpstöðvar í apríl.

Fjórar staðreyndir um súluna:

  1. Súla getur kafað að minnsta kosti niður á 24 metra dýpi.
  2. Meðalflug súlna frá varpstað að fæðuslóð í Skotlandi mældist 232 km, en sú sem fór lengst flaug yfir 500 km leið.
  3. Súlan vermir egg sitt í hreiðrinu með fótunum.
  4. Nasir súlunnar eru innan goggsins, sem kemur í veg fyrir innflæði vatns þegar hún kafar.

Fjölskyldulíf súlunnar

Í maí verpir súlan í bröttum björgum, stöpum og klettaeyjum. Fuglarnir stunda einkvæni og láta vel hvort að öðru í tilhugalífi og meðan á ungauppeldi stendur. Hreiðrið er hrúga af þangi og ýmiss konar drasli sem er límt saman með driti fuglanna. Í það verpir súlan einu eggi. Álegan tekur um 44 daga og kynin skiptast á að unga út meðan hitt veiðir til matar. Ólíkt öðrum fuglum vermir súlan eggið sitt með fótunum en ekki bara kviðnum.

Ungarnir fæðast fiðurlausir, blindir og fremur ófrýnilegir. Þeir eru algerlega háðir umönnun foreldranna fyrstu dagana eða þar til þeir fá dúnhýjung sem heldur á þeim hita. Foreldrarnir veiða fisk sem þeir æla hálfmeltum upp í ungana, sem er eitt af einkennum árfeta. Matseðillinn samanstendur af þeim uppsjávarfiskum sem mest er af á hverjum stað s.s sandsíli, síld, loðnu, makríl og þorskfiskum ýmiss konar.

Súlan á Íslandi og víðar

Stofnstærð súlunnar á Íslandi er um 37.000 varppör og um helmingur þeirra verpir í Eldey sem er eitt stærsta súluvarp heims. Súlan verpir líka í Súlnaskeri við Vestmannaeyjar, Skoruvík á Langanesi, í Skrúðnum við austurland og Rauðanúpi á Melrakkasléttu. Mikilvægasta búsvæði súlunnar er á Bretlandseyjum þar sem nokkur mjög stór vörp eru að finna. Stærsta súluvarp í heimi er á eyjunni Bass rock í Skotlandi, þar sem yfir 75.000 fuglar verpa. Auk þess eru stór vörp á Labrador og Nýfundnalandi í Kanada, þar sem tugir þúsunda verpa þétt saman í sæbröttum klettum. Þegar haustar yfirgefur súlan varpstöðvar sínar og flækist talsvert um heimshöfin. Stór hluti íslenska stofnsins heldur til Vestur-Evrópu eða jafnvel suður til Vestur-Afríku.

Súlan veiðir og er veidd

Veiðiaðferð súlunnar er kallað „súlukast“ en þá stingur hún sér lóðrétt í hafið eftir æti á miklum hraða, úr allt að 40 metra hæð. Súlan eltir síldar-, loðnu- og makrílgöngur í stórum hópum. Ef sjómenn sjá mikið súlukast geta þeir verið vissir um að nú beri vel í veiði. Hvalir elta einnig fiskitorfurnar og því sjást súlur oft svífa yfir haffletinum í hvalaskoðunarferðum við Ísland.

Súlan var talsvert nýtt til matar fyrr á tímum þegar ungarnir voru orðnir stálpaðir en enn ófleygir. Talað var um að fara í „súlnafar“ en sama veiðiaðferð var notuð og þegar frændi hennar skarfurinn var veiddur í svokölluðu „skarfafari“. Hópur veiðimanna læddist að varpinu og umkringdi súlurnar en þegar þar var komið voru ungarnir rotaðir með barefli. Þessar veiðar, ef veiðar skildi kalla, hafa nú lagst af að mestu enda er súlan alfriðuð á Íslandi í dag.

Hlekkir til að stinga sér í

Author: Dr. Þórður Örn Kristjánsson
Photographer: Ragnar Th. Sigurðsson

Translate »