Sjáðu stokköndina: Útbreiddasti andfugl heimsins

Til eru yfir hundrað tegundir af öndum en flestir Íslendingar tengja orðið önd og barnamálið „bra-bra“ við stokkönd (Anas platyrhynchos) enda er hún auðþekkt, spök og algeng við tjarnir þar sem börn gefa fuglum brauð. Stokkönd tilheyrir gásfuglum (Anseriformes) innan andaættarinnar (Anatidae) þar sem hún er ein af buslöndunum (Anatinae) sem eru stundum nefndar hálfkafarar eftir fæðuöflunaraðferðinni. Stokkendur eru mjög útbreiddar og finnast í Evrópu, Asíu, Ameríku og á vissum svæðum Ástralíu.

Steggurinn er mikill spjátrungur

Eins og hjá öðrum öndum er mikill útlitsmunur á kynjum. Kollan, en svo kallast kvenfuglinn, er gráleit með brúna tóna í fiðri, fremur litlaus en þó með fallega bláa vængspegla og appelsínugular fætur. Steggurinn, en svo kallast karlfuglinn, er hinsvegar mjög skrautlegur. Einkennandi er hinn skærgræni haus á hvítum hálskraga. Bringa er dökkbrún en kviður, síður og bak ljósgrátt. Steggurinn hefur eins og kollan áberandi bláa spegla í væng en stél er svart með hvítum gumpi. Goggur er gulur en fætur appelsínugulir með sundfitjum á milli tánna. Steggurinn er sjónarmun stærri en kollan. Eins og aðrir andfuglar eru stokkendur í fjaðrafelli síðsumars og eru þá kynin svipuð útlits. Þyngd fuglanna breytist nokkuð eftir árstíðum, 700-1500 gr, lengdin er 50-56 cm og vænghaf 80-100 cm en stokköndin er stærsta buslönd landsins.

Stofnstærð og hegðun

Flestar stokkendur á Íslandi eru staðfuglar en hluti stofnsins fer þó af landi brott seint á haustin og heldur til Bretlands ásamt gæsum og álftum. Varpstofn er talinn vera 10000-15000 pör sem dreifist allt í kringum landið en heldur sig þó aðallega á láglendi. Tilhugalíf stokkanda byrjar snemma vetrar og stendur allt fram á vor. Þær eru félagslyndar og  eru oftar en ekki í misstórum hópum. Stokkendur stofna til hjúskapar eitt ár í senn og stunda einkvæni þótt framhjáhöld séu tíð, eins og hjá öðrum öndum. Eftir að fuglar parast reynir steggurinn að vernda kolluna eftir bestu getu, oft er mikill handagangur í öskjunni þegar aðrir steggir reyna parast við spúsu hans.

Stokkendur hafa gríðarlega aðlögunarhæfni

Stokkendur hefja varp í lok apríl en aðalvarptíminn er í maí og byrjun júní. Þær sýna mikla aðlögunarhæfni við búsvæðaval, verpa í votlendi, við sjó eða jafnvel mannabústaði. Hreiðrið er venjulega falið í gróðri og vel einangrað með dún og fiðri. Urptin er stór, 7-12 egg, og tekur álegan 26-28 daga. Eggin eru rjómagul eða ólífugræn að lit. Þegar líður á áleguna yfirgefur steggurinn kolluna og heldur til með öðrum steggjum í fjaðrafelli en kvenfuglinn hugsar um egg og loks unga.

Ungarnir elta kolluna á fæðustaði og halda þau hópinn fram á haust. Stokkendur geta kafað en þær, eins og aðrar buslendur, fara einungis með efri hluta búksins í kaf þegar þær róta sér upp fæðu með gogginum. Fæðuvalið er fjölbreytt, skel- og lindýr ýmiss konar í fjörum, skordýr og lirfur í ferskvatni og allskyns vatnagróður. Seint á haustin sækja stokkendur í kornakra og jafnvel sníkja sér brauðbita hjá mannfólkinu.

Vinsælasta önd veraldar?

Stokkönd er útbreiddasta önd heimsins og finnast afbrigði hennar nánast um alla veröld. Stokkendur eru frjósamar, verða fljótt kynþroska og bragðast vel. Þetta hefur gert það að verkum að maðurinn hefur flutt hana með sér til nýrra heimkynna og ræktað hana áfram til manneldis. Í dag er stokköndin talin forfaðir flestra alianda. Stokkönd er einnig, ásamt fasana (Phasianus colchicus), vinsælasta villibráð skotveiðimanna í heiminum.

Vissir þú?

  1. Flestar aliendur eiga uppruna sinn að rekja til stokkandarinnar.
  2. Stokkönd byrjar varp eins árs gömul og verpir mörgum eggjum svo nýliðun stofnsins er mikil. Hún er vinsæl villibráð á Íslandi og er árleg veiði 10-15 þúsund fuglar.
  3. Stokkönd er stundum kölluð grænhöfði eftir hinum einkennandi græna haus steggjarins. Einnig er hún nefnd stóra gráönd en buslendur hafa löngum verið kallaðar gráendur einu nafni.
  4. Elsta villta stokkönd sem vitað er um var 27 ára gömul en meðalaldur í náttúrunni er 5-10 ár.
  5. Litur goggs og fóta stokkandarinnar gefur tilvonandi maka færi á að meta heilbrigði fuglsins. Þeim mun skærari litur því betur er fuglinn haldinn.

Hlekkir fyrir grænhöfða:

Fuglavefur

NÁTTÚRUFRÆÐISTOFNUN ÍSLANDS

Sjaðu YouTube

English Version

Höfundur & ljósmyndari: Dr. Þórður Örn Kristjánsson

Translate »