Sjáðu tjaldinn: Einn þekktasti fugl landsins

Hvert íslenskt mannsbarn þekkir tjaldinn (Haematopus ostralegus) enda er hann áberandi yfir sumartímann með sínu háværa pípi. Tjaldur er vaðfugl (Charadrii) af tjaldaætt (Haematopodidae) og er útbreiddur við strendur vestur-Evrópu en finnst einnig í austur-Evrópu og Asíu.

Tjaldur er svarthvítur og einkennandi fyrir fjörur landsins

Hann er auðþekktur vaðfugl enda stór og áberandi. Hann vegur um 600 gr, er 40-45 cm að lengd með 80-85 cm vænghaf. Fuglinn er kolsvartur en vængir hafa áberandi hvíta rönd en kviður, síður og gumpur eru einnig hvít. Augun er skærrauð með appelsínugulum augnhring á fullorðnum fuglum. Fætur eru langir sem einkennir vaðfugla en þeir eru fölbleikir að lit. Goggur er langur og beinn, 8-9 cm, og appelsínugulur. Ungfuglar eru fölari en fullorðnir með dökkan goggenda og hvíta kverk. Kynin eru eins en karlfuglinn sjónarmun stærri. Tjaldur er frár á fæti, flýgur hratt og vel syndur.

Útbreiðsla og stofnstærð

Á Íslandi finnst tjaldur á láglendi um allt land en heldur sig mikið við fjörur. Aðalvarpsvæðin eru á Suðvesturlandi og ná nokkuð inn til landsins meðfram stórum ám og á ræktarlandi. Stofnstærð er talin um 13000 varppör. Tjaldur er að mestu farfugl og yfirgefur landið seint á haustin. Stór hluti stofnsins heldur til Bretlandseyja en nokkuð af fugli fer enn lengra til Galicia á norðvestur Spáni. Nokkur þúsund fuglar þreyja þó þorrann í íslenskum fjörum. Flestir þessara fugla verpa á Breiðafirði en finnast yfir vetrartímann suðvestan- og suðaustanlands.

Tjaldur eru mjög fastheldinn á varpstað

Tjaldur kemur til landsins í mars og sést þá oft í stórum hópum í fjörum sunnanlands þar sem fuglarnir fita sig upp fyrir komandi varptímabil. Tilhugalífið byrjar strax og stunda þeir einkvæni, parast oft til lífstíðar. Þeir eru mjög fastheldnir á sína varpstaði svo það skeikar jafnvel aðeins örfáum cm á hreiðurstæði milli ára. Vitað er um par sem verpti á sama stað í 20 ár. Tjaldurinn verpir ekki í eiginlegum vörpum frekar en aðrir vaðfuglar, hvert par á sitt eigið varpsvæði.

Foreldrar mata unga sína

Hreiður tjaldsins er lítil dæld í grasi, möl eða sandi, lítillega einangruð með sinu og smásteinum og yfirleitt nálægt sjó eða vatni. Varpið hefst lok apríl eða byrjun maí og eru eggin 2-4, brún að lit með dökkum doppum. Varp getur þó seinkað fram í júní ef aðstæður eru óhagstæðar. Bæði kynin unga út og tekur álegan 23-27 daga. Eftir klak bera foreldrarnir fæðu í ungana sem spígspora um óðalið. Fæstir vaðfuglar mata unga sína á þennan hátt en þetta er eitt af einkennum tjaldaættarinnar.

Hvað borða þeir og hvernig?

Tjaldur velur sér fæði eftir búsvæði hverju sinni en sækir mikið í dýraríkið. Á vorin og sumrin sækir hann í ræktað land og votlendi inn til landsins þar sem hann étur ána og ýmiss konar skordýr. Í fjörum étur hann skeldýr, bæði samlokur og kuðunga ásamt burstaormum (Polychaeta) sem hann stingur upp úr leirunum með sínum langa goggi.

Tjaldar sýna mismunandi atferli við skelfiskát. Annað hvort nota þeir gogginn til að klippa á festivöðva skeljarinnar og draga fiskinn út eða þeir brjóta skelina við stein. Ungar læra af foreldrum sínum þá aðferð sem þeir nota og annað ekki.

Vissir þú?

  1. Tjaldur er þjóðarfugl Færeyja.
  2. Tjaldur er einn af fáum vaðfuglum sem matar unga sína. Flestir aðrir vaðfuglaungar afla sér fæðu sjálfir strax eftir útleiðslu úr hreiðri.
  3. Tjaldur á það til að verpa inn í borg og bæjum. Hreiðrið er þá í vegkanti, á hringtorgi eða jafnvel á húsþaki þar sem einhverja möl er að finna.
  4. Tjaldur getur náð háum aldri, en meðalaldur er um 12 ár. Sá elsti sem vitað er um á Íslandi var 29 ára en 43 ára í Englandi.
  5. Tjaldur verður kynþroska 3-5 ára.

Hlekkir fyrir tjald-ferðalanga:

Fuglavefur

NÁTTÚRUFRÆÐISTOFNUN ÍSLANDS

Rannsóknasetur Háskólans á suðurlandi er með margar vaðfuglarannsóknir í gangi

Frábært blogg um íslenska tjalda og rannsóknir á vaðfuglum (á ensku).

English Version

Höfundur & ljósmyndari: Dr. Þórður Örn Kristjánsson

Translate »