Sjáðu óðinshanann: Hvaðan kom hann?

Óðinshani (Phalaropus lobatus) er vaðfugl af sundhanaætt (Phalaropus) sem tilheyrir ættbálki strandfugla (Charadriiformes). Sundhanar eru lítil ætt fugla en auk óðinshana tilheyra þórshani (Phalaropus fulicarius) og freyshani (Phalaropus tricolor) ættinni. Óðinshani er farfugl sem yfirgefur landið í  hópum á haustin en kemur aftur þegar dagur lengist og vorið gengur í garð.

Sundblöðkur bera ættinni óbrigðult merki

Óðinshani er fíngerður fugl um 18-20 cm að lengd og vegur 25-40 gr. Þegar fuglarnir mæta til landsins klæðast þeir sumarskrúða og eru þá litríkir. Einkennandi er ryðrauður litur sem myndar kraga um háls fuglsins með hvítum bletti í kverkinni. Enska heiti óðinshana „red-necked phalarope“ er dregið af þessum rauða hálskraga. Kviður er ljós en bak grátt. Hvítt vængbelti er áberandi á flugi en fuglinn flýgur hratt og skrykkjótt en þó yfirleitt stuttar vegalengdir á varptíma. Kvenfuglinn er skærari að lit en karlfuglinn en annars eru kynin svipuð útlits. Óðinshani hefur svartan gogg og dökkar sundblöðkur á fótum sem er einkenni sundhana.

Óðinshani er flugfimur, þýtur upp af vatnsborði við truflun og sest jafn fimlega spölkorn frá. Hann er ekki einungis góður flug- og sundfugl heldur getur einnig kafað þegar svo ber undir. Óðinshani er algengur á Íslandi og finnst jafnt á láglendi sem hálendi svo framarlega sem þar eru næringaríkar tjarnir og votlendi. Því er oft haldið fram að óðisnhani sé síðasti farfuglinn til að koma til Íslands á vorin en fyrstu fuglarnir sjást yfirleitt eftir miðjan maí og þá er fuglafánan loksins fullkomnuð. Óðinshani nærist á hryggleysingjum ýmiss konar og þá sérstaklega rykmýslirfum, brunnklukkum (Agabus bipustulatus) og smá krabbadýrum sem hann rótar upp úr botnsetinu. Yfir vetrartímann úti á sjó er aðalfæðan dýrasvif. Talið er að stofnstærð óðinshana á Íslandi sé 30.000-50.000 varppör.

Óðinshani er sko engin karlremba

Óðinshani er merkilegur fugl þar sem kvenfuglinn hagar sér eins og karlfugl margra annarra tegunda. Kvenfuglinn er bæði stærri og skrautlegri en karlfuglinn og hafa þau nánast snúið við hinum venjubundnu kynjahlutverkum fugla. Kvenfuglinn eltist við karlfuglinn á mökunartíma og getur verið aðgangsharður. Eftir mökun velur kvenfuglinn álitlegt hreiðurstæði og verpir fjórum eggjum. Kvenfuglinn ver maka sinn og varpsvæðið fyrir öðrum kvenfuglum.  Eftir varp yfirgefur hún hreiðrið en karlfuglinn sér um eggin þá 17-21 daga sem álegan tekur.

Þá er fjölveri kvenfugla einnig vel þekkt þar sem kvenfuglar eiga tvö hreiður með sitt hvorum karlfuglinum. Hreiður óðinshana er lítil dæld með þurri sinu sem er ávallt vel falið í þúfum og gróðri í lífríku votlendi. Ungar klekjast vel þroskaðir úr fremur stórum drapplituðum eggjum með dökka díla. Um sólarhring eftir klak, leiðir karlfuglinn ungana á vænlegar fæðuslóðir. Unginn er gulbrúnn að lit með dekkri bletti á baki og haus en hvítan kvið og dökkt nef. Ungarnir eru varir um sig og fljótir að fara í felur þegar hætta steðjar að. Karlfuglinn verndar ungana og fylgir þeim allt að 3 vikur en yfirgefur þá þegar þeir verða sjálfbjarga þótt ekki séu þeir enn orðnir fullfleygir.

Síðsumars missir óðinshaninn litina og verður ljósblágrár með hvítan kvið og dökkan blett við augun. Um það leiti fer hann að tygja sig af landi brott, yfirleitt í lok ágúst. Ekki var vitað um vetrarsetu íslenska óðinshanans fyrr en árið 2015 en þá endurheimtist merktur fugl sem bar dægursírita er gaf upp vetrarstaðsetningu fuglsins. Þessir litlu fuglar halda í ævintýralega langferð alla leið suður að miðbaug. Hið 32-42 cm vænghaf flytur hinn smágerða óðinshana 10,000 km leið frá Íslandi til hafsvæðisins við Perú í Suður-Ameríku. Þar eyðir hann vetrinum í félagsskap dýranna hans Darwins við Galapagoseyjar.

Þarna er sérhæfður „skrifari“ að störfum

Óðinshani hefur stundum verið kallaður „skrifari“. Líklega er þetta tilkomið vegna þess atferlis að synda í hringi við fæðuöflun og gára vatnið. Þá “skrifar” fuglinn bæði í botnsetið með sundblöðkunum þar sem hann þyrlar upp lindýrum og á vatnsborðið þar sem hann tínir upp ætið eldsnöggt með sínu fíngerða „skriffæri“.

Nokkrar nettar staðreyndir um óðinshana

  1. Óðinshani eyðir um 9 mánuðum á hverju ári úti á sjó.
  2. Dæmigerðum kynjahlutverkum fugla er snúið við hjá óðinshana. Kvenfuglar berjast innbyrðis um hylli karlfuglanna en þeir sjá um álegu ásamt ungauppeldi.
  3. Íslenskir óðinhanar fljúga um 10.000 km frá vetrarstöðvum við miðbaug til varpstöðva á Íslandi.
  4. Sundhanaættin telur einungis þrjár tegundir og er ein minnsta fuglaætt nútímans.

Hlekkir fyrir „skrifara“

Náttúruminjasafn Íslands

Fuglavefur

NÁTTÚRUFRÆÐISTOFNUN ÍSLANDS

English Version

Höfundur: Dr. Þórður Örn Kristjánsson

Ljósmyndari: Dr. Þórður Örn Kristjánsson & Ragnar Th. Sigurðsson

Translate »