Sjáðu lundann á Íslandi: Þvílíkur goggur!

Lundi (Fratercula arctica) er einn hinna svokölluðu svartfugla (Alcidae) er lifa og verpa við Ísland en hinir eru teista, langvía, stuttnefja, álka og hinn sjaldgæfi haftyrðill. Heimkynni lundans eru við NA Atlantshaf og verpir hann í Grænlandi, Skotlandi, Færeyjum og Noregi en stærsti hluti stofnsins verpir á Íslandi. Fuglinn finnst einnig í Norður Ameríku, stærstu byggðirnar eru í Nýfundnalandi og Labrador en lundinn er einkennisfugl þeirra svæða.

Hvernig hagar hann sér?

Lundinn er farfugl og eyðir um 8 mánuðum á ári úti á rúmsjó en kemur að landi og uppí eyjar þegar fer að vora og varptími að hefjast. Lundinn grefur sér 1-3 metra löng göng í jarðveginn og verpir einu eggi í lok ganganna. Lundaeyjar eru því oftar en ekki sundurgrafnar af fuglunum. Pörin halda tryggð við hvort annað og geta náð háum aldri.

Elsti merkti lundi á Íslandi sem vitað er um var 38 ára gamall en meðalaldur er 20-25 ár. Eggin klekjast út á u.þ.b. 40 dögum og unginn sem er kallaður pysja eða kofa, heldur sig í holunni þar sem hann fær fisk í gogginn frá foreldrunum, þar til hann yfirgefur hreiðrið síðsumars og heldur útá sjó. Lundinn verður kynþroska 4-5 ára gamall og snýr þá aftur á sínar uppeldisstöðvar þar sem hann helgar sér holu eða grefur fyrir nýrri.

Algengasti fugl landsins

Presturinn eða prófasturinn eru önnur nöfn yfir lundann enda þykir hann minna á yfirprest í hempu sinni þar sem hann spígsporar um eyjarnar með sitt litríka nef. Fuglinn finnst um allt land en stærstu varpstöðvarnar eru í Vestmannaeyjum og telja um 800 þúsund varppör. Stórar varpstöðvar eru einnig á Breiðafirði, Vigur, Drangey, Papey, Grímsey og í Mánareyjum svo nokkrar séu nefndar.

Íslenski lundastofninn er metinn um 2 milljónir varppara og er talinn algengasti fugl landsins en um 60% af heimsstofninum verpir á Íslandi. Stofnstærð hefur minnkað til muna en var metin allt að 10 milljón pör á árum áður. Hrun í sandsílastofni kringum árið 2005 gekk nærri lundanum sem og mörgum öðrum sjófuglum. Lundinn lifir á smáfiski, sérstaklega loðnu, síld og sandsíli enda afbrags kafari og getur náð sér í fisk niður að 60 metra dýpi.

Fimm fræknar staðreyndir um lundann:

  1. Lundinn getur kafað niður á 60 metra dýpi eftir æti og verið 2 mínútur í kafi.
  2. Þrátt fyrir smágerða vængi getur lundinn flogið allt að 88 km/klst. með 400 vængjasláttum á mínútu.
  3. Lundinn getur orðið a.m.k. 40 ára gamall og halda pörin saman alla ævi.
  4. Nefið á lundanum breytir um lit á veturna er þá svart/grátt en lítið er vitað um atferli lhans þá 8 mánuði sem hann dvelur úti á rúmsjó.
  5. Hægt er að skoða lundabyggðir víðsvegar um landið enda er hann algengasti fugl Íslands og verpa um 60% af heimstofninum hér við land.

Tenglar sem vert er að skoða:

Fuglavefur

Náttúruminjasafn Íslands

NÁTTÚRUFRÆÐISTOFNUN ÍSLANDS

English Version

Höfundur: Dr. Þórður Örn Kristjánsson
Ljósmyndari: Ragnar Th. Sigurðsson & Dr. Þórður Örn Kristjánsson

 

Translate »