Sjáðu gulöndina: Stærsta ferskvatnsönd landsins

Gulöndin (Mergus merganser) er af ættkvísl fiskianda (Mergus) en á Íslandi telst toppönd (Mergus serrator) einnig til þeirra ættkvíslar. Nöfnin fiskiönd og vatnsönd hafa einnig verið notuð um gulöndina í gegnum tíðina. Gulönd hefur stundum verið kölluð stóra toppönd og hvíta toppönd en þessar tegundir eru nokkuð keimlíkar í útliti.

Stór og falleg fiskiönd

Eins og hjá öðrum andategundum (Anatidae) er mikill litamunur á karl- og kvenfuglinum. Karlinn hefur dökkleitt höfuð með grænleitum blæ og dökkt bak en grátt stél. Skörp litaskil eru áberandi þar sem hvítur litur einkennir neðri hluta fuglsins frá hálsi. Kvenfuglinn er hinsvegar með brúnt höfuð og hnakkatopp, gráleit um bak og síðu en með hvíta kverk, kvið og vængskellu.

Goggur og fætur eru dökkrauð hjá báðum kynjum. Goggurinn er langur og grannur með krók og hvössum brúnum til að halda fiski föstum. Gulendur vega 1,5-2 kg og eru stærstu ferskvatnsendur landsins. Þær eru 58-66 cm að lengd og hafa 82-97 cm vænghaf. Þær geta flogið mjög hratt og hafa mælst á allt að 70 km/klst.

Stofninn er lítill og dreifður um landið

Gulönd verpir aðallega meðfram stórum næringarríkum ám. Hún kýs að fela hreiður sitt í gjótum og glufum ýmiss konar en finnst einnig oft á hreiðri við híbýli manna þar sem hún getur falið sig. Stofnstærð er illa þekkt en metin um það bil 300 varppör. Gulönd er að hluta til staðfugl og getur sést um allt land við sjávarsíðuna eða á ófrosnum ám yfir vetrartímann.

Frábærir kafarar

Utan varptíma eru gulendur félagslyndar og sjást þá oft í litlum hópum. Þær eiga það til að veiða saman, þar sem þær smala smáfisk í torfu sem þær svo kafa eftir. Gulendur eru frábærir kafarar og geta verið yfir 2 mínútur í kafi. Þær skima um eftir fiski með höfuðið undir vatnsfletinum og kafa svo þegar þær koma auga á álitlega bráð.

Varpvistfræði gulandarinnar

Tilhugalíf gulanda hefst í desember og stendur fram á vor, en þá er oft hamagangur í öskjunni þegar steggirnir slást um hylli kollnanna. Þær parast eitt ár í senn og halda pörin saman þar til varp er yfirstaðið. Eins og hjá öðrum andategundum yfirgefur þá steggurinn kolluna og fellir fjaðrirnar á meðan kollan ungar út urptinni. Gulandarurpt er oftast 8-11 egg, rjómagul að lit sem vega um það bil 85 gr hvert.

Hreiðrið er einangrað með sinu og dún af fuglinum og tekur álegan um 1 mánuð. Ungar eru bráðgerir og yfirgefa hreiðrið 1-2 sólarhringa gamlir. Þeir eru gráleitir með hvítan kvið og vanga en brúna hettu á höfði. Kollan passar ungana og ber þá jafnvel á bakinu þegar þeir verða þreyttir á sundi. Ungar finna sér æti sjálfir og eru orðnir góðir kafarar viku gamlir. Kollan yfirgefur ungana áður en þeir verða fleygir 2ja mánaða gamlir.

Gulönd hefur verið alfriðuð á Íslandi frá árinu 1966. Hún hefur verið óvinsæl í gegnum tíðina bæði hér heima og erlendis á meðal fiskræktenda, þar sem hún sækir í seiði og étur úr sleppitjörnum og fiskeldisstöðvum.

Vissir þú?

  1. Til eru þrjár undirtegundir gulanda sem finnast um allt norðurhvel jarðar. m. merganser finnst á Íslandi, N-Evrópu og N-Asíu. M. m. orientalis finnst við fjallavötn í Mið-Asíu og M. m. americanus er útbreidd í N-Ameríku.
  2. Elsta gulönd sem vitað er um var 13 ára og 5 mánaða þegar hún endurheimtist eftir merkingu í N-Ameríku.
  3. Gulendur eru mjög felugjarnar á álegutíma. Erlendis verpa þær aðallega í holum trjám, oft hátt frá jörðu en á Íslandi í gjótum og glufum.
  4. Gulandarkollur eiga það til að taka að sér unga annarra kollna og hafa sést erlendis með allt að 50 unga saman í hóp.
  5. Gulendur verða kynþroska 2ja ára.

Kafað eftir meiri fróðleik?

Önd í laxa­telj­ar­an­um

Fuglavefur

Náttúruminjasafn Íslands

English Version

Höfundur & Ljósmyndari: Dr. Þórður Örn Kristjánsson

Translate »