University of Iceland

Perlan og Háskóli Íslands skrifa undir viljayfirlýsingu um samstarf

Í desember síðastliðnum undirrituðu framkvæmdastjóri Perlunnar, Agnes Gunnarsdóttir og forseti verkfræði-og náttúruvísindasviðs Háskóla Íslands, Hilmar Bragi Janusson, viljayfirlýsingu um samstarf í tengslum við uppbyggingu náttúrusýningarinnar í Perlunni.

Viljayfirlýsingin felur í sér að fræðsluefni sýningarinnar verði byggt á nýjustu þekkingu í náttúru- og raunvísindum. Perlan mun verða miðstöð miðlunar rannsókna og rannsóknaniðurstaða sem vísindamenn og doktorsnemar við Háskóla Íslands hafa unnið að um ókomin ár.

„Innan sviðsins eru vísindamenn sem eru mjög framarlega á sínu sviði í rannsóknum tengdum jarð- og jarðeðlisfræði, jöklafræði, jarðhita, og umhverfis- og auðlindafræði. Þetta sést m.a. á því að bæði erlendir nemendur og vísindamenn sækjast eftir að koma hingað til að starfa og taka þátt í þeim þróttmiklu rannsóknum sem m.a. varpa ljósi á það hvaða áhrif loftslagsbreytingar og jarðhræringar hafa á bæði lífríki og samfélag,” segir Hilmar.

Þau Agnes og Hilmar eru sammála um að tækifærið sé afar gott fyrir báða aðila og að hlutverk Perlunnar sem fræðslugáttar til almennings skipti höfuðmáli við undirritun yfirlýsingarinnar.

„Samstarf við Háskóla Íslands er gríðarlega mikilvægt og það á eftir að koma okkur og háskólanum að góðu gagni. Það skiptir öllu máli að allt sem við setjum fram í Perlunni sé rétt og vel stutt af fræðasamfélaginu. Sömuleiðis er þýðingarmikið að Perlan gegni hlutverki ákveðinnar gáttar fyrir nýjar rannsóknir sem fræðimenn innan Háskóla Íslands vinna, að opna fyrir flæði milli vísindasamfélagsins og almennings. Við höfum unnið náið með fræðimönnum frá háskólanum hingað til og erum þess fullviss að samstarfið muni áfram ganga vel,” segir Agnes að lokum.

Leave a Comment