Hettumáfur: Minnsti máfur Íslands

Hettumáfur (áður Larus ridibundus, samheiti Chroicocephalus ridibundus) er af máfaætt (Laridae) og ættkvíslinni Chroicocephalus en henni tilheyra litlir til meðalstórir máfar sem flestir skarta einhverskonar kollhúfu eða hettu. Áður voru þessar tegundir innan Larus ættkvíslarinnar sem inniheldur hina eiginlegu máfa. Hettumáfur er útbreiddur og verpir víða í Evrópu, Asíu og við austurströnd Kanada.

Hettumáfur er nettur og með áberandi dökkbrúna kollhúfu

Hettumáfur dregur nafn sitt af mjög einkennandi dökkbrúnni hettu sem hann skartar á höfði í sumarbúning. Annars er fuglinn hvítur með ljósgrátt bak og svarta vængenda. Fætur hafa sundfit milli tánna og eru ásamt goggnum rauðir að lit á fullorðnum fugli. Nýfleygir ungar eru brúnflikróttir að ofan en ljósari að neðan með litlausa fætur og brúnan gogg. Ungfuglar á fyrsta ári eru með bleika fætur og dökkan goggenda en eru annars hvítir með svartflikrótta vængi. Í vetrarbúning er hettumáfur að mestu hvítur með brúnflikrótta vængi og dökka bletti aftan við augun. Hettumáfur er 38-44 cm langur með 95-110 cm vænghaf og vegur um 300 gr. Karlfuglinn er sjónarmun stærri en kvenfuglinn eins og venjan er með strandfugla.

Hettumáfur finnst um allt land en stofnstærð sveiflast talsvert.

Tegundin nam hér land um 1930 og dreifðist hratt umhverfis landið. Stofninn óx og náði hámarki 1990 þegar hann var metinn 25000-30000 varppör. Í dag er stofnstærðin óþekkt en hún hefur sveiflast mikið frá 1990 en telst þó enn sterk. Hettumáfar finnast um allt land og halda sig mikið í fjörum og höfnum en sjást þó einnig langt inn til landsins.

Hvaðan koma þeir og hvert fara þeir?

Flestir íslenskir hettumáfar eru farfuglar sem koma til landsins í lok mars en ferðast til Bretlands og vestur Evrópu þegar fer að hausta í september. Íslenskir fuglar hafa einnig sést við suðvestur Grænland og Nýfundnaland. Nokkur þúsund fuglar halda þó til við Íslandsstrendur yfir vetrartímann, flestir sunnan- og suðvestanlands.

Varp og ungauppeldi

Hettumáfar verpa aðallega í votlendi eða í námunda við vatn og sjó. Það finnast þó vörp á láglendi á þurrum söndum og í móum. Þeir eru oftar en ekki í dreifðum vörpum sem geta talið yfir 1000 pör. Hreiðrið er dyngja úr þurrum gróðri og fjöðrum þar sem hettumáfurinn verpir 2-3 eggjum sem klekjast á 23-26 dögum. Eggin eru ólífugræn með dökkum dílum og vega um 40 gr hvert. Báðir foreldrar hugsa um og vernda ungann þar til hann verður fleygur. Þeir færa honum æti og ylja honum á köldum nóttum. Hettumáfur ver varpsvæði sitt af mikilli hörku sem aðrir varpfuglar njóta góðs af. Þess vegna er oft fjölskrúðugt fuglavarp innan hettumáfabyggða.

Matseðill hettumáfs er fjölbreyttur!

Eins og aðrir máfar er hettumáfurinn mikill tækifærisinni í fæðuvali og vel þekktur „borgarfugl“ sem sækir í ýmsan úrgang frá mannfólkinu. Í fjöru lifir hann á skel- og lindýrum ýmiss konar, étur smáfisk og fiskúrgang en sækir mikið í skordýr og ána í nýslegnum túnum inn til landsins. Hettumáfar hafa sést stela eggjum og jafnvel ungum mófugla ásamt því að leggjast í berjamó á haustin.

Vissir þú?

  1. Hettumáfur er minnsta máfategund Íslands.
  2. Fræðiheiti hettumáfs þýðir „hinn hlæjandi máfur“ en hljóð hettumáfs minnir á hlátur.
  3. Elsti merkti hettumáfur sem vitað er um var 33 ára gamall.
  4. Ungur hettumáfur verður fulltíða og fær sína hettu 2 ára gamall.
  5. Hettumáfur var stundum kallaður „Moggakría“ fyrr á tímum þar sem iðulega birtist mynd af honum á síðum Morgunblaðsins undir fyrirsögn að krían væri kominn en báðar tegundir skarta einkennandi hettu á höfði.

Hlekkir í hettuna:

fuglavefur.is

Náttúrufræðistofnunar Íslands

Náttúruminjasafn Íslands

English Version

Höfundur & ljósmyndari: Dr. Þórður Örn Kristjánsson

Translate »