Sjáðu flórgoðann: Eini fiðraði goðinn á Íslandi

Flórgoði (Podiceps auritus) er af goðaætt (Podicipedidae) ásamt 20 öðrum tegundum sem tilheyra sex ættkvíslum en er eina tegundin sem finnst á Íslandi. Útbreiðsla flórgoðans er frá Skandinavíu um Eystrasaltslöndin austur um Asíu og Norður-Ameríku. Einnig finnast stöku varppör í Skotlandi. Íslenski flórgoðinn er að mestu farfugl og heldur til við Bretland og Frakkland yfir veturinn en þó finnast fuglar við Íslandsstrendur árið um kring.

Flórgoði í sumarskrúða er glæsileg sjón

Fullorðinn flórgoði í sumarskrúða hefur hvítan maga, ryðbrúnar síður og háls en dökkt gljáandi bak og hnakka. Höfuðið er skrautlegt þar sem kinnar og enni eru svört en appelsínugulur vængjaskúfur nær frá auga aftur að hnakka. Augun eru áberandi rauð með gulum augasteinum. Goggur er hvass og dökkur en fætur eru blágráir og hafa sundblöðkur sem er einkenni goðaættarinnar. Flórgoði vegur um 400 gr og er 30-40 cm að lengd. Karlfuglinn er ögn stærri en kvenfuglinn annars eru þeir eins útlits.

Ungi flórgoðans er gráleitur, höfuðið hefur áberandi svartar rendur og þrjá bleika fiðurlausa bletti, einn við hvort auga og einn á enni. Vetrarbúningur fuglanna er grár, ljósari að neðan en dekkri að ofan.

Stofninn fer vaxandi eftir erfið ár

Fyrr á tímum var flórgoði algengur varpfugl um allt land að undanskildum Vestfjörðum. Stofninn hrundi í kringum 1950 og var mink (Mustela vison) og framræslu votlendis kennt þar um. Flórgoðinn var að mestu bundinn við Mývatn og voru aðeins um 300 pör á landinu þegar minnst var. Eftir 1990 hefur stofninn farið vaxandi og er fjöldi varppara nú talinn vera í kringum 1000. Eins og fyrr er Mývatn mikilvægasta búsvæðið en Skagafjörður, Öxarfjörður og Úthérað koma þar næst á eftir. Síðustu 5 árin hefur flórgoði verið að nema sín gömlu varpsetur kringum höfuðborgina og finnst nú víða borgarbúum til yndisauka.

Tilhugalíf flórgoðans er flókið og margslungið

Í byrjun apríl mætir flórgoðinn í sumarskrúða á varpstöðina sem er grunnt næringarríkt vatn eða tjörn með miklum gróðri. Tilhugalífið er langt og fjölbreytilegt. Pörin stunda m.a. svokallaðan slýdans þar sem dansað er í takt á vatnsfletinum með slý í gogginum. Þessu atferli fylgir mikill gusugangur og atlot sem skemmtilegt er að fylgjast með.

Pörin byggja saman flothreiður úr ýmsum gróðri sem þau safna í myndarlega dyngju. Þar verpir kvenfuglinn 3-6 hvítum eggjum. Eggin hafa mjúka kalkskurn og taka fljótlega lit úr dyngjunni og verða móbrún. Varptími stendur frá miðjum maí og út júní og tekur álegan 22-25 daga. Bæði kyn liggja á eggjum og sjá um ungana. Hvert flórgoðapar á sitt óðal á tjörninni sem er þeirra fæðusvæði og er það varið gegn ágangi nágrannanna.

Ungauppeldi og fæðuval

Ungarnir halda sig í flothreiðrinu fyrst um sinn og færa foreldrar þeim fæðu. Aðalfæðan fyrstu dagana eru ýmis vatnaskordýr en smáfiskur, mestmegnis hornsíli (Gasterosteus aculeatus), verður fljótlega efst á matseðlinum. Flórgoðinn étur sitt eigið fiður sem er talið bæta meltinguna. Ungar byrja að synda og kafa nokkurra daga gamlir og fylgja foreldrunum um óðalið, oft á baki þeirra, en fjölskyldan hvílist í flothreiðrinu.

Fjölskyldan heldur saman þar til ungarnir verða fleygir sem tekur um tvo mánuði en þá er varpsvæðið yfirgefið og haldið út á sjó. Á veturna halda flórgoðar sig á grunnsævi og éta þá hryggleysingja og smáfisk ýmiss konar. Flórgoðar verða kynþroska 2-3 ára og fara þá að huga að varpsvæði.

Flórgoðinn vill gjarnan byggja sér flothreiður á greinabrúski.

Hægt er að aðstoða flórgoðann við að finna heppilegt varpstæði á vötnum með því að draga út greinar sem laða fuglana að. Þessi aðferð hefur gefist vel t.d. við Vífilsstaðavatn og Elliðavatn þar sem nokkur pör verpa í manngerðum trjábrúskum útí vatninu.

Vissir þú?

  1. Til eru mörg gömul heiti yfir flórgoða. Sem dæmi má nefna flóðskítur, flóri, flóðseta, flóðasmyrill og sefönd.
  2. Goðar eru einu fuglarnir sem éta sitt eigið fiður. Ástæða þess er óljós en fiðurát er talið hjálpa við meltingu fæðunnar.
  3. Ungar goða fá að hvílast og ferðast um á baki foreldra sinna, atferli sem á sér ekki hliðstæðu hjá öðrum fuglum.
  4. Flórgoði hefur ekki sundfit milli tánna eins og aðrir vatnafuglar heldur blöðkufætur þar sem hver tá hefur sína eigin sundblöðku.
  5. Flothreiður flórgoðans er sérstæða í íslenskri fuglafánu, undarleg smíð úr gróðri sem flýtur á vatnsborðinu.

Hlekkir til að fljóta í:

Fuglavefur

NÁTTÚRUFRÆÐISTOFNUN ÍSLANDS

SIGLFIRÐINGUR.IS

Náttúruminjasafn Íslands

English Version

Höfundur & ljósmyndari: Dr. Þórður Örn Kristjánsson

Translate »