Dansleikur: Líflegt listaverk hjá Perlunni

Fjórar bronslitar persónur dansa við vindinn og söng fuglanna á toppi Reykjavíkur, við hlið Perlunnar. Flestum stekkur bros á vör, enda er verkið líflegt og virðist nánast bjóða vegfarendum upp í dans. Margir koma til að sjá náttúrusýningarnar í Perunni en finnst upplifunin hefjast strax hjá Dansleiknum.

Dansandi frá 1970

Verkið Dansleikur samanstendur af fjórum bronslitum styttum, tveggja metra háum. Þorbjörg Pálsdóttir (1919-2009) hannaði verkið árið 1970 og gaf Reykjavíkurborg það 25 árum síðar. Verkið hefur hrátt yfirbragð og er tímalaust í einfaldleika sínum. Það nær til fólks á öllum aldri og af ólíkum uppruna. Mörgum þykir Dansleikur vísa til sambands nokkurra félaga eða stemningar sem skapast þegar fólk sameinast í tónlist. Hver og einn getur haft sínar hugmyndir um hvað persónurnar séu að gera en flestum finnst þær dansa eða leika á hljóðfæri.

Dansleikur er dæmigert verk eftir Þorbjörgu. Mörg þeirra sýna einfaldar fígúrur í ólíkum stellingum, einar og sér eða litlum hópum. Þær eru oftast meira en mannhæðar háar, þó í fjarlægð virðist þær vera smærri. Höfuð og skrokkar persónanna í Dansleik eru hol að innan og þær eru gerðar úr efni sem rétt dugir svo þær standi sterkar í stellingum sínum.

Þetta er listamaðurinn

Þorbjörg Pálsdóttir er hugsuðurinn að baki Dansleiks og fjölda annarra listaverka. Námsferill hennar hófst á Íslandi þegar hún lauk prófi frá Myndlista- og handíðaskóla Íslands. Síðar naut hún leiðsagnar myndhöggvaranna Sigurjóns Ólafssonar og Jóhanns Eyfells. Þorbjörg var á þrítugsaldri þegar hún fluttist til Svíþjóðar til að stunda nám við Konstfack og Berggrens Målarskola.

Þorbjörg átti spennandi feril og var einn stofnenda Myndhöggvarafélagið í Reykjavík árið 1972. Hún ferðaðist innanlands og utan landssteinanna til að taka þátt í ýmsum sýningum, en sýndi verk sín líka á nokkrum einkasýningum. Þorbjörg var virkur þátttakandi á útisýningum á Skólavörðuholtinu í mörg ár. Þar fékk Dansleikur einmitt að stíga sinn fyrsta dans árið 1970. Áður en verkið fluttist í Öskjuhlíðina þar sem það stendur í dag, voru stytturnar steyptar í brons.

Upplifðu útilistaverk Reykjavíkur í nýju smáforriti

Listasafn Reykjavíkur kynnti nýlega nýtt smáforrit (e. app) sem heitir Reykjavík Art Walk, en það má einnig stilla á íslensku. Með forritinu má kynnast á skemmtilegan hátt um tvö hundruð útilistaverkum sem Listasafn Reykjavíkur hefur umsjón með, auk fleiri verka. Hverju verki fylgir fræðandi og skemmtilegt efni; textar, myndir, hljóðleiðsagnir og leikir. Forritið getur líka leiðbeint notendum að næsta útilistaverki.

Forritið hentar fyrir Android og iOS stýrikerfi og því má hlaða niður endurgjaldslaust.

Ljósmyndari: Ragnar Th. Sigurðsson

Translate »